This page may contain traces of nuts!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Binni i Bretlandi
 
föstudagur, janúar 31, 2003  
Djö
við rétt misstum af heví blizzard í Aberdeen. Síðastliðna tvo daga hefur snjóað nokkuð austanmegin í landinu og í Skotlandi. Mest snjóaði í Aberdeen. Það hefði verið hressandi að lenda í smá slydduéljum og skafrenningi.

Það snjóaði víst eitthvað smá í London og þar í kring. Ekki mjög mikið samt. Það var hins vegar nóg til að allt samgöngukerfið færi úr skorðum. Verstu umferðarhnútar sögunnar mynduðust í London í gærkvöldi. Fólk sat fast í bílum sínum í yfir 20 klukkutíma. Samt var bara ca 5 cm snjólag. Umferðin á hraðbrautunum sem liggja til og frá London fór líka í hnút. Þar sátu menn fastir í meira en sólarhring. Svo hættu lestir að ganga og flugumferð féll niður.
Kannski bara eins gott að við Mæja vorum ekki á ferðinni tveimur dögum seinna. Þá hefðum við lent í tómum töfum.

Nú eru menn að velta því fyrir sér af hverju samgöngukerfið hér er svona viðkvæmt. Smá snjór, sem menn vissu að myndi koma, og allt fer úr skorðum.

Við höfum ekki enn séð neitt af þessum snjó hér í Bristol. Smá kuldi kannski en annars bara bjart og fínt veður. Ég hékk nú mest inni í dag og las mína tölfræði. Hafði bara nokkuð gaman af því. Skellti mér reyndar í smá labbitúr og endaði í Tesco þar sem ég keypti mér gúmmelaði í kvöldmatinn. Nú er það að hitna í ofninum. 190 gráður á selsíus og allir í gír.
Mæja er á kvöldvakt og því er ansi róleg stemming hér heima. Lítið merkilegt í tv í kvöld svo maður endar kannski bara yfir bókunum. Reyndar er þáttur á dagskrá sem heitir Royal deaths and diseases. Þokkalegasti þáttur þar sem það er m.a. útskýrt með nákvæmum hætti hvernig hinn og þessi kóngurinn særðist í bardaga hér fyrr á öldum, hvar kom örin inn, hvernig var hún dregin út, hvernig sverðið hjó hann í herðar niður o.s.frv. Bardagasenur settar á svið og miðaldasérfræðingar fengnir til að útskýra hin ólíkustu vopn og verjur. Ansi skemmtilegt fyrir stöff fyrir stráka á öllum aldri. Þeir ættu að sýna þetta á Sýn.

18:49

fimmtudagur, janúar 30, 2003  
Ó Aberdeen Ó Aberdeen
þú litskrúðuga borg.

Ferðasagan heldur áfram þar sem frá var horfið.
Ásta og Justin og Ben, sonur þeirra, sóttu okkur til Dunkeld á sunnudeginum. Ferðinni var heitið til Aberdeen þar sem þau búa. Leiðin lá um fjöll og firnindi eða svona næstum því. Keyrðum m.a. fram hjá Balmoral kastala þar sem Kalli prins og co dvelja stundum. Stoppuðum aðeins í smábænum Braemar sem er víst þekktastur fyrir árlega hálandaleika. Þar rakst ég á götuheitið Mar Road. Einar Mar ætti nú að tékka á stöðunni þarna. Bærinn virtist ansi viský- og bjórvænn.
Vorum mætt til Aberdeen um kvöldmatarleytið og tókum því rólega heima hjá þeim Ástu og Justin.

Daginn eftir röltum við Mæja um Aberdeen. Borgin er vægast sagt mjög grá. Hvert einasta hús er hlaðið úr gráu graníti og götur og gangstéttir eru auðvitað gráar líka. Það var varla að maður greindi nokkurn annan lit svona fljótt á litið. Svolítið sérstakt. Það ætti eiginlega að banna gráa bíla þarna því þegar veðrið er líka frekar grátt eins og það var hjá okkur þá greinir maður ekki gráan bíl frá bakgrunninum! Það er nú málið.
Það var samt mjög gaman að rölta þarna um. Kíktum aðeins niður að strönd og sáum m.a. sápu-froðu-diskótek. Langaði svo sem ekkert þangað inn en fannst svolítið fyndið að finna það á þessum stað. En hvað veit maður. Borgin er rík. Olíugróðinn fer í ýmislegt misgáfulegt. Sá líka í einhverju dagblaðinu að ítalska mafían, frá Napólí reyndar, er með starfsemi þarna. Aberdeen er víst nyrsta borg Evrópu þar sem mafían hefur náð fótfestu. Peningaþvottur er málið. Svo eru þeir með ítalskan veitingastað í bænum, Pavarotti, þar sem allir skosk-ítölsku donarnir safnast saman og éta kjötbollur og skipuleggja næstu trix.
Hvað um það. Þriðjudagurinn byrjaði á smá fjallgöngu rétt utan við Aberdeen. Svo kvöddum við gestgjafa okkar og tókum lestina frá Glasgow um hálffjögur. Áttum ekki flug fyrr en um hálftíu þannig að við gátum stoppað í tvo tíma í Glasgow. Höddi og Gurrý tóku á móti okkur á lestarstöðinni og við drifum okkur á næsta bar og náðum tveimur öllurum. Gaman að hitta þau. Væri alveg til í að skreppa aftur norður til Glasgow og klára kippuna!
Misstum næstum af vélinni frá Glasgow. Vorum kölluð upp og alles. Við rétt náðum að hoppa upp í vélina áður en kapteinninn setti allt í botn og þrumaði suður til Bristol.

Í Bristol var endurkomu okkar fagnað með skrúðgöngu og flugeldasýningu.

21:06

miðvikudagur, janúar 29, 2003  
Þá erum við mætt aftur til Bristol eftir góða ferð norður til Skotlands.
Ferðin á föstudaginn gekk sérdeilis vel. Við lögðum af stað frá miðbæ Bristol rúmlega þrjú, vorum komin í miðbæ Glasgow klukkan sjö og til Dunkeld klukkan níu um kvöldið.
Ég heyrði varla í sjálfum mér ropa fyrir ferðafélögum okkar í lestinni á leiðinni frá Glasgow. Við lentum nefnilega í vagni með heilu steggjapartýi. 20 gaurar með græna hjálma með græju sem gerði þeim kleyft að drekka úr tveimur bjórdollum í einu í gegnum rör. Flestir notuðu þessa græju með miklum myndarbrag. Rop á ca 5 sek fresti og bjórdolla opnuð á ca 10 sek fresti segir allt sem segja þarf. Vargar af bestu gerð eins og Höddi myndi orða það.
Svenni tók á móti okkur í Dunkeld og keyrði okkur rakleiðis í kotið sem hann og Wendy og Fróði Euan, sonur þeirra, búa í. Við skruppum svo aðeins á hótelbarinn til að ná tveimur öl fyrir lokun. Það tekur innan við mínútu að rölta á barinn svo það var fátt sem gat stoppað okkur í þetta sinn. .
Laugardagurinn var rólegur og fínn. Fórum í labbitúra upp með River Tay og að Hermitage þar sem við fundum m.a. hæsta tré í UK, 62 metrar á hæð, flottan foss o.fl. Svæðið í kringum Dunkeld er mjög fallegt og algjör eðall að rölta þarna um. Mæli með því.
Svo enduðum við þetta á því að fá okkur kaffisopa með Gordon og Rhonu, foreldrum Wendyar.
Um kvöldið var slegið upp veislu þar Wendy og Svenni buðu upp á haggish, kartöflustöppu og rófustöppu ásamt rauðvíni. Trixið er að stappa stöppunum saman við haggish-ið og þá er þetta hinn allrabesti matur.
Auðvitað var aðeins kíkt á barinn eftir matinn og svo var setið eitthvað frameftir í stofunni og aðeins tæmt á viský birgðunum hans Svenna.
Daginn eftir var svo haldið til Aberdeen. Meira um það seinna.



23:22

föstudagur, janúar 24, 2003  
Jæja, loksins búinn í prófunum.
Stærðfræðin gekk bara nokkuð vel. Ánægður með það.
Hlakka verulega til að byrja í sex nýjum kúrsum í næstu viku. Nýjar bækur og meira djúsí stöff. Loksins.

Eftir prófið fórum við svo á háskólabarinn. Flestir úr bekknum mættu fengu sér nokkra bjóra. Gaman að því.
Þessi dagur byrjaði á Burger King. Big King meal í morgunmat. Tekur 5 mínútur að rölta á staðinn svo maður kvartar ekki.
Svo er bara að drífa sig til Skotlands. Við Mæja eigum pantað flug með easyjet rétt fyrir fimm í dag. Bristol til Glasgow á rúmum klukkutíma. Svo tökum við lest til Dunkeld. Mætum þangað klukkan rúmlega níu í kvöld. Þar taka Svenni og Wendy á móti okkur. Fróði Ewan, sonur þeirra, ætlar að lána okkur herbergið sitt í tvær nætur.
Ég hlakka mikið til að mæta til Dunkeld. Ein besta laxveiðiá í Skotlandi, River Tay, rennur í gegnum þorpið allt í kring eru skógi vaxin fjöll. Þokkalegt. Hinum megin við ána er annað þorp, Birnam. Birnam wood kom mikið við sögu í MacBeth.
Á sunnudaginn ætlar Ásta, systir Mæju, að sækja okkur til Dunkeld. Hún og fjölskylda hennar búa í Aberdeen. Við ætlum að vera þar í tvo daga.
Svo tökum við lest frá Aberdeen til Glasgow á þriðjudaginn og fljúgum heim til Bristol um kvöldið. Það væri ekki amalegt að rekast á Hödda í Glasgow (Hörður Harðarson, markaðsgúbbi frá Stöð 2, m.a. ábyrgur fyrir ósiðlegum Sýnar-dagblaðaauglýsingum og fleiri lúalegum markaðstrixum). Hann er að massa masterinn þar og við ættum að geta hitt hann áður en við fljúgu um kvöldið.
Rokk og ról.
Meira meira fjör
meira fjör
meira fjörefni

eða

ég bora í mín nasagöng
og finn rækjulykt af löngutöng

Sverrir Stormsker í gír. Stundum söng Stebbi Hilmars fyrir hann. Hann söng t.d. lagið Horfðu á björtu hliðarnar og líka Eurovision-lagið Sókrates. Stundum söng líka einhver kona fyrir hann. Man ekki hvað hún heitir. Alda eitthvað, Ólafsdóttir jafnvel. Alda þessi flutti svo til London og reyndi fyrir sér í poppbransanum hér. Hún átti einn smell, Have a real good time. Hún leit út eins og lítil tröllastelpa og náði ansi hátt. Komst inn á topp 20 hér. Þegar við Mæja vorum í London um jólin þá fórum við inn á Írskan bar rétt hjá Piccadilly Circus, eiginlega í China-town. Þar settust tvær konur við borðið við hliðina á okkur og töluðu íslensku. Ég er nokkuð viss um að önnur þeirra hafi verið þessi Alda. Við spjölluðu aðeins við þær og þær voru í góðu stuði. Þær virtust vera í miklum partýgír þessi jólin.
Have a real good time.
Ekki gott lag. Var vinsælt ca 1998 - eða 1997. Ekki mikið gerst hjá Öldu síðan þá - hún leit amk ekki út fyrir að vera í comeback gír.

12:54

miðvikudagur, janúar 22, 2003  
Sjúbb sjúbb sjarei
sjúbb sjúbb sjarei

nú er ég farinn
nú er ég farinn
nú er ég farinn
og búinn að vera
bla bla bla bla
ekkert hægt að gera
nú er ég farinn

sjúbb sjúbb sjarei

söng Stefán Hilmarz fyrir ca 15 árum. Stefán þessi er alls óskyldur Kalla Hilmarz f.v. Nesbúa og fyrirliða B-liðs Gróttu í 5. flokki sem keppti á UMSK mótinu í knattspyrnu undir dyggri stjórn Þorvaldar Mazda-man. Flestir leikir töpuðust þrátt fyrir að ein helsta stjarna A-liðsins, Þröstur "BíBí" (hann var líka réttlega kallaður Trassi), léki einnig ólöglega með B-liðinu undir því yfirskini að B-liðs Trassinn væri eineggja tvíburi A-liðs Trassans og því væri allt í orden. Mótherjar okkur áttu nú svolítið bágt með að trúa þessu og lá við slagsmálum í búningsklefanum. Kalli hefur nú lagt knattspyrnuskóna á hilluna og stýrir nú einu stærsta vélmenni norðan Ibiza.

Lagstúfurinn hér í upphafi kom upp í hugann á mér því nú er ég farinn í mat og próf og bráðum í ferðalag. Jibbí.


11:45

þriðjudagur, janúar 21, 2003  
Slökkviliðsmenn í verkfalli hér, enn og aftur. Á meðan ganga hermenn í störf þeirra. Græjur hersins eru þó ekki eins fullkomnar og hermennirnir ekki eins vel þjálfaðir í almennum slökkvistörfum. Þingmaður fyrir Torys kallaði leiðtoga slökkviliðsmanna "complete idiots" núna áðan í sjónvarpinu. Herinn er að undirbúa sig fyrir stríð í Írak og á að einbeita sér að því, hermenn hafa engan tíma til að sinna slökkviliðsstörfum út um hvippinn og hvappinn.

Bond í sjónvarpinu. Nú er hann að aftengja kjarnorkusprengju í Istanbul. Þeir eru helvíti duglegir að sýna Bond myndir hérna. Kannski efla þær þjóðarstoltið. Ein mynd á viku ætti að duga til að halda mönnum við efnið. Myndirnar njóta sín reyndar ekki vel í 14 tommu Fidelity sjónvarpinu sem við erum með. Væri alveg til í að skipta á því og 28 tommu Grundig tækinu mínu. Synd að skilja það eftir hjá Arnari. Hann horfir örugglega bara á SkjáEinn. Ekki getur það nú talist gott.
Próf á morgun. Decision Analysis. Svo er það stærðfræðin á fimmtudag. Skosku hálöndin á föstudag. Aberdeen á sunnudag. Djöfull verður það fínt.
Meira um það síðar.

22:59

mánudagur, janúar 20, 2003  
Mecca Cola er málið. Það finnst amk mörgum múslimum og þeim sem vilja tjá anti-americanisma í neyslu sinni . Þessi drykkur nýtur nú vinsælda hér í UK. Hann kom fyrst á markað í Frakklandi fyrir nokkrum mánuðum og gengur vel þar. Nú á að taka UK með stormi og seldust 300.000 lítrar fyrstu tvær vikunar sem drykkurinn var á markaði hér. 10% af söluhagnaði á að nota til að stykja málefni tengd Palestínu og 10% eiga að fara til góðgerðarmála í Evrópu. Næst á dagskrá hjá fyrirtækinu sem framleiðir Mecca Cola er að opna keðju skyndibitastaða, Halal Fried Chicken. (Engar skinkusamlokur þar!)
Mecca Cola er valkostur þeirra sem kjósa að drekka cola drykki en vilja ekki styrkja bandarísk stórfyrirtæki í leiðinni - eða vilja bara sýna skoðanir sínar á táknrænan hátt. Mecca Cola á reyndar langt í land með að ná Coke eða Pepsi í vinsældum en mögulegur markaður fyrir drykkinn er stór víða um heim.
Í Middle-East eru múslimar þegar farnir að sneyða hjá amerískum vörum eins og Pampers bleium og Heinz tómatsósu. Velta á vestrænum skyndibitastöðum í Saudi-Arabíu hefur dregist saman um 50% á sl. tveimur árum. Nú síðast hafa einhver samtök í Egyptalandi mælt með því að fólk hætti að kaupa Ariel þvottaefni vegna þess að það ku vera nefnt í höfuðið á Ariel Sharon, forsætirráðherra Ísraels.
Það virðist því geta skipt bandarísk fyrirtæki nokkru máli hvaða nöfn þeir bera sem halda um stjórnartaumana í Ísrael og víðar. Það myndi t.d. henta þeim illa ef forsætisráðherra Ísraels væri bjóráhugamaðurinn Bud Miller, sonur hjónanna Reebok Wrigley´s og Kellogs McDonalds!! Ætli afstaða ráðamanna í USA til Ísraels myndi ekki breytast. "Bannað að pirra Palestínumenn".
Ég tel hins vegar ólíklegt að hagsmunir íslenskra fyrirtækja geti verið í hættu af líkum ástæðum. Það er t.d. afskapalega ólíklegt að maður kallaður Nói-Síríus komist til valda í Ísrael (eða hvað, Nói var nú á þessum slóðum í örkinni sinni hér forðum daga!). Frón, Júmbó, Góa eða Ora eru amk ólíklegt nöfn. Ekki það að eitthvað að þessum fyrirtækjum sé yfir höfuð eitthvað sérstaklega líklegt til að hasla sér völl í Middle-East.
Það er nú málið.



19:20

laugardagur, janúar 18, 2003  
Langur laugardagur.
Tíminn líður frekar hægt þegar maður situr bara á rassgatinu og borar í nefið. Það er á hreinu.
Tel mínúturnar þangað til klukkan slær hálf-sjö. Þá byrja fréttir á Channel 4 og þá er tilvalið að fá sér að borða. Þar sem Mæja er að vinna í kvöld þá er ég bara í tilbúnu réttunum. Á matseðlinum er Spinach & ricotta cannelloni frá Tesco og Tesco finest 4 cheese & sundried tomato stromboli brauð + Pepsi max, að sjálfsögðu. Þetta brauð er algjör snilld. Hitar það í ofni og það gjörsamlega bráðnar í munninum.

Kláraði fyrir stuttu að lesa ævisögu Karls Marx eftir Francis Wheen. Splunkuný bók þar sem höfundurinn reynir að taka aðeins öðruvísi á efninu en allir þeir sem reynt hafa að tækla þetta efni áður. Þetta var fróðleg lesning því einhvern veginn vissi maður ósköp lítið um Marx þótt maður þekkti nafnið mjög vel og vissi svolítið um hvaða skoðanir hann hafði og hvað hann skrifaði. Svo var þessi Engels alltaf að flækjast þarna líka. Maður þekkti nafnið en hafði ekki hugmynd um hvaða hlutverki hann þjónaði. Nú veit ég allt um það en ætla svo sem ekkert að rekja það hér.
Eitt var þó svolítið fróðlegt. Engels var frá Manchester og þar átti pabbi hans átti vefnaðarverksmiðju þar sem mörg hundruð verkamenn unnu við bág kjör og erfið skilyrði. Engels var alltaf með annan fótinn í fjölskyldufyrirtækinu og þegar fram liðu stundir var hann aðalmaðurinn í rekstrinum. Þessi verksmiðja malaði fjölskyldunni gull og Engels hafði það alltaf mjög gott. Hann giftist aldrei en átti hjákonur hér og þar, ferðaðist um Evrópu og átti hin ýmsu rándýru áhugamál.
Marx átti hins vegar aldrei bót fyrir rassinn á sér. Hann bjó í London síðustu 30-40 ár ævi sinnar með konu sinni og fjórum eða fimm börnum og barðist alltaf í bökkum. Hann vann aldrei neina launavinnu svo heitið geti heldur sat mikið inni á British museum þar hann stundaði rannsóknir og skrifaði (þegar hann hafði heilsu til). Afrakstur þessa starfs var svo bókin hans, Kapital. Engels sá svo um að lesa yfir það sem Marx skrifaði og beindi honum í réttar áttir. Það var víst ekki vanþörf á því, Marx átti það til að gleyma sér í smáatriðum. Til vitnis um það eru footnotes upp á meira en 2 blaðsíður í fyrstútgáfu Kapital. Reyndar segja sumir að bókin Kapital sé í heild sinni til vitnis um að Marx átti það til að gleyma sér í smáatriðum. Hann fékk sáralítil viðbrögð við bókinni eftir að hún kom út. Margir eru á því að það hafi verið vegna þess að enginn skildi upp né niður í henni. Sumir kaflarnir eru víst svo mikið torf að hinir mestu spekingar gefast upp. Charles Darwin var einn af þeim. Hann sendi Marx skeyti þar sem hann óskaði honum til hamingju með frólegt og vel skrifaði verk. Svo kemur síðar í ljós, eftir að C.D. er látinn, að eintakið sem hann átti af Kapital var nær ósnert. Búið var að fletta og krota við fyrstu kaflana en svo virðist hann hafa gefist upp og ekki tekið bókina upp aftur.
En ég ætla ekki að gleyma mér í þessu smáatriði! Marx var sem sagt ekki með neinar tekjur að ráði. Eitthvað fékk hann þó fyrir að skrifa greinar í blöð í USA og Evrópu. (Það var nú reyndar Engels sem skrifaði flestar þessar greinar. Marx kom aldrei neinu í verk og ef hann kom einhverju í verk þá tók það svo langan tíma og afraksturinn var heil bók en ekki ein stutt grein). En til að geta framfleytt fjölskyldunni varð Marx að fá pening og það var Engels sem kom honum til bjargar ár eftir ár. Það má eiginlega segja að Engels hafi framfleytt Marx og fjölskyldu hans. Peningar Engels komu frá fjölskyldufyrirtækinu þannig að þetta var gróði kapitalista af vinnu verkalýðsins. Það var eitthvað sem Marx skrifaði mikið um og fannst ekki til fyrirmyndar. Í raun vildi hann afnema slíkt kerfi. Hann hafði hins vegar ekkert á móti peningunum frá Engels.
Það var þetta sem mér fannst fróðlegt.
Ég lái Marx hins vegar ekkert að taka við peningunum. Hann varð að fæða og klæða krakkaskarann. Frá því var ekki hlaupist.

17:57

föstudagur, janúar 17, 2003  
Já góðan daginn!
Þá er ég búinn að fara í tvö próf. Fyrsta prófið var á miðvikudaginn og ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki alveg nógu ánægður með frammistöðu mína í prófinu. Klúðraði aðeins. En það kemur nú fyrir bestu menn. Held ég geti alveg útilokað Distinction einkunn í þessum kúrsi (heitir Operational research and simulation). Mér gekk mun betur í gær en prófið (Applied statistics) var frekar langt og erfitt svo ég náði ekki alveg að klára það. Ég er amk búinn að afgreiða þennan kúrs.

Var búinn í prófinu í gær um fimmleytið. Tók þá strætó beint niður í miðbæ og fór beint á Hogshead pöbbinn. Hitti Mæju þar en planið var að fá sér smá bjór og fara svo í bíó. Eftir þrjá bjóra var ákveðið að slaufa bíóinu og fara bara út að borða í staðinn. Fórum á Pizza Express sem er eins konar fínni útgáfa af Pizza Hut. Meira svona Italian style. Ég fékk mér pizzu með spínati, valhnetum og gorgonzola osti. Rauðvínsflaska með. Pizzan var eðall og rauðvínið jafnvel betra. Auðvitað kom ekki til greina að fara heim eftir matinn svo við heimsóttum írskan pub í miðbænum og sátum þar þangað til okkur var hent út kl. 23.

Í dag tók alvaran svo við aftur. Nú er það stærðfræðin sem á hug minn allan. Gaussian elimination og Markov processes svo eitthvað sé nefnt. Verð feginn þegar þessi próftörn er búin. Langar að lesa eitthvað nýtt efni.

Þetta föstudagskvöld er frekar rólegt. Mæja að vinna og ég að læra. Spjallaði við Mödda og Einar Mar á msn áðan. Þeir voru að fá sér nokkra öl, enda ekki þekktir fyrir annað en að vera öflugir í þeim efnum. Væri nú alveg til í að vera með þeim núna.
Einar Ingimundar ætti á þessari stundu að vera að halda upp á góðan árangur í lögfræðinni. Hann massaði víst almennuna með glæsibrag. Öflugur. Nú eru bara fjögur og hálft ár eftir í Lögbergi, þeirri stórskemmtilegu og einkar vel hönnuðu byggingu!!!

Ægir félagi eignaðist sitt annað barn í gærmorgun. Núna var það stór og stæðilegur drengur. Þeim fjölgar vinunum sem eiga fleiri en eitt barn. Aldurinn er greinilega að færast yfir mann. Úffa. Mér liggur samt ekkert á.



22:49

mánudagur, janúar 13, 2003  
Var orðinn þokkalega morkinn upp úr hádegi. Tölfræðin alveg að fara með mig. Ótrúlegt en satt!
Ákvað að reyna að bæta úr þessu með því að fara í extra langan göngutúr. Rölti fyrst upp í skóla og fór aðeins á bókasafnið. Náði í bók um marketing models sem gæti komið að góðum notum í mastersritgerðinni. Á reyndar enn eftir að ákveða efnið en finnst líklegt að það verði eitthvað markaðs- og media tengt. Sjáum til með það. Keypti svo stórsniðuga bók sem heitir Weather: A guide to recognizing different weather phenomena and understanding their causes. Massasvalt. Þessi bók á eftir að gefa af sér mörg gullkorn í fjallaferðum næstu ára.....og alveg örugglega fjölmargar kolrangar veðurspár. Ekki spurning.
Tók svo country leiðina heim, þ.e. yfir Öskjuhlíðina okkar hér í Bristol. Þetta er myndarleg hæð, þakin skógi og víða eru herminjar úr WW2. Ef það snjóaði eitthvað að ráði hér þá væri þessi staður tilvalinn fyrir gönguskíðin. En því miður þá er þessi landshluti ekki þekktur fyrir snjóþunga.

Sá að einn af hverfispöbbunum okkar, grillhúsið Hungry horse, er með tilboð í gangi. The big tenner. Maður kaupir 5 pæntur á 10 pund. Sannkallað stúdentaverð. Verst að maður þarf að kaupa 5 í einu. Aðeins of mikið fyrir okkur tvö. Tilboðið gildir til 31. jan þannig að nú væri tilvalið fyrir bjórþyrsta vini og vandamenn að kíkja til Bristol!
Staðurinn auglýsir líka núna: Get more meat and lose more pounds. Veit ekki alveg hvernig má túlka þetta slagorð. Gæti virkað sem tvöfalt kjaftshögg að falla fyrir þessu.

Kom svo heim endurnærður eftir labbitúrinn og kláraði lokaverkefnið í stærðfræðikúrsinum. Er þá búinn með öll verkefnin og á bara eftir að fara í 4 próf til að klára fyrstu önnina. Vorönnin verður aðeins öflugri því þá tek ég 6 kúrsa. Nú er komið að öllu djúsí stöffinu í þessu námi. Búinn með undirbúnings- og inngangskúrsana og þá náttúrulega tilvalið að sökkva sér aðeins dýpra í fræðin. Einn kúrsinn kallast forecasting, annar er um algorithms, svo eru þarna multivariate statistical methods, advanced statistical modelling, research methods og mathematical programming. Sem sagt mjög almennt og aðgengilegt helvíti. Fokk, hvað er maður búinn að koma sér út í!



18:24

sunnudagur, janúar 12, 2003  
The Sunday Times er alltaf keypt á þessu heimili. Þetta er mikill bunki af blöðum sem dugar okkur eitthvað fram eftir vikunni. Í blaðinu eru 12 sérblöð: business, sport, travel, culture, style, home, driving, sunday times magazine, news review, the funday times, appointments og money. Ég les nú ekki öll þessi blöð heldur reyni að kíkja á aðalblaðið og 3-4 sérblöð.
Í blaðinu í dag kemur fram að árið 2002 seldust að jafnaði 1.397.533 eintök af blaðinu og að jafnaði lásu 3.522.000 manns hvert blað. Salan hefur aukist mikið sl. mánuði og er The Sunday Times langvinsælasta Sunday broadsheetið í UK. Samt eru þeir sem lesa blaðið undir 10% af þjóðinni. Til samanburðar þá minnir mig að um 60% Íslendinga lesi sunnudagsblað Moggans (skv dagbókarmælingum). Seld eintök á sunnudegi eru ca 50-60.000 eintök.

Í sjónvarpinu eru sápurnar langvinsælastar. Coronation Street (ITV1) og EastEnders (BBC) eru á toppnum. 12-14 milljónir horfa á hvern þátt. Fréttir á BBC1 fá aðeins 6 milljónir áhorfenda en eru samt vinsælasti fréttatíminn hér.
Ég hef ekki enn gerst svo frægur að horfa á svo mikið sem einn sápuþátt. Hjá mörgum er þetta bara hluti af rútínunni. Borða kvöldmat, horfa á sápu, fara á pöbbinn, sofa.
Sápurnar eru líka mikilvægur stökkpallur fyrir leikara. Menn verða náttúrulega mjög frægir þegar þeir birtast á skjánum á hverju kvöldi í marga mánuði eða jafnvel ár. Eftir sápuferilinn fara leikararnir í tv seríur og sjónvarpsmyndir. Sumir enda svo í kvikmyndum og verða heimsfrægir. Öðrum gengur illa, seríurnar og bíómyndirnr floppa og götublöðin hafa engan áhuga lengur. Þá fara menn í Celebrity Big Brother eða eitthvað annað raunveruleikasjónvarp. Það er síðasta hálmstráið.
Eftir það má reyndar gefa út ævisöguna og lenda í smá hneyksli á sama tíma. Það gæti framlengt ferilinn um nokkra mánuði og gefið eitthvað í aðra hönd. Sumir gefa reyndar út 2 og jafnvel fleiri ævisögur, fyrir þrítugt. Það þarf náttúrulega að uppfæra ævisöguna eftir síðasta hneyksli. The true story.

18:26

laugardagur, janúar 11, 2003  
Síðustu dagar hafa verið frekar rólegir og tilbreytingarsnauðir hjá mér. Ég geri lítið annað en að lesa fyrir próf, frá morgni til kvölds. Þótt ótrúlegt megi virðast þá fær maður leið á þessari rútínu. Tók mér því smá frí í gær.
Við Mæja fórum fyrst í Smáralind Bristol-borgar. Þar eru nokkrar búðir, bíó, keiluhöll og allir mögulegir skyndibitastaðiðir nema Hlölla-bátar. Held að skyndibitastaðirnir hafi tekið meira pláss þarna heldur en búðirnar sjálfar. Fengum okkur einn bjór í keiluhöllinni sem er reyndar alveg ótrúlega svipuð og keiluhöllinni í Öskjuhlíð. Kannski eru allir keilusalir hannaðir eins svo misgáfðir keilumeistarar þurfi ekki að eyða of mikilli orku í að átta sig á staðháttum þegar þeir heimsækja keiluhallir á framandi slóðum. Maybe. Eftir bjórinn fórum við á fimmsýningu á Lord of the rings - Two towers. Fínasta bíó og massamynd. Eftir myndina var haldið niður í miðbæ þar sem við fengum okkur pizzu og rauðvín á notlegum veitingastað og svo enduðum við á jazzklúbbi þar sem undirritaður náði að hella í sig nokkrum svalandi Stellu pæntum.

Þessi laugaradagur var hinsvegar helgaður regression analysis. Gaman að því.
Kjúklingur í karrýsósu með hrísgrjónum og nan brauði og pepsi max á matseðlinum í kvöld. So I married an axe murderer og enski boltinn í tv í kvöld. Þokkalegt.

Pósturinn Páll og kötturinn Njáll færðu mér í dag síðbúna jólagjöf frá Frexinu. Í pakkanum var m.a. almanak frá versluninni Kjötborg. Almanakið prýðir mynd af Skriðuklaustri. Helvíti magnað hjá þeim Kjötborgarbræðrum.


19:07

miðvikudagur, janúar 08, 2003  
A black “puma-like” beast er á kreiki í Llangadong í Wales. Tveggja hunda var saknað og fór eigandinn út að leita að þeim. Eftir stutta leit sá hann hvar stór svartur köttur stóð yfir öðrum hundinum, blóðugur í framan eftir að hafa bitið hundinn á háls. Reyndar var hálsinn bitinn af. Hinn hundurinn hafði flúið inn í kofa þar sem hann fannst skjálfandi og tæpast mjög brattur.
Þetta gerðist í gær. Puman er enn ófundin og nú bíða menn eftir næstu árás. Svona atvik hafa oft komið fyrir áður hér í UK og oftast hér í suðurhlutanum eða í Wales. Fyrir 20 árum var á ferli í Devon (næsta sýsla) eitthvert óargadýr sem drap yfir 80 rollur. Þeir kölluðu það “the Black Beast of Exmoor”. Dýrið kom aldrei í leitirnar.
Það er talið að þessir kettir séu fyrrverandi heimiliskettir sem eigendurnir slepptu þegar þeir hættu að vera litlir sætir kettlingar og urðu að ógnandi drápsvélum. Það er auðvitað ólöglegt að halda svona gæludýr og því erfitt að fá þau svæfð hjá dýralækni. Þá er næstbest að fara bara í bíltúr til Wales með litlu sætu Pumuna og sleppa henni þar. Hún reddar sér þar, lifir af gæðum landins.
Því er spáð að fyrr en síðar muni þessir kettir ráðast á menn hér uppi á heiðum. Saklaus hillwalker að fá sér cup of tea í grænni lautu hefði ekki gaman að því að fá “the Black Beast of Exmoor” í heimsókn.
Þetta minnir mann svolítið á söguna af Sherlock Holmes og Backerville hundinum.



20:50

mánudagur, janúar 06, 2003  
Brunagaddur í Bristol. Snjóruðnings- og saltdreifingargræjur borgarinnar eru í startholunum.
Mæja er á kvöldvakt og ég sit einn heima yfir bókunum. Það styttist í fyrsta prófið.
Hef verið að lesa helvíti leiðinlegt efni í dag og er enn að. Algjört kjaftæði.
Fór út að ganga áðan, svona rétt til að hressa aðeins upp á morkinn heilann. Það er frost og stjörnubjartur himinn. Vantar bara norðurljósin. Rölti fram hjá hverfispöbbnum. Inni í hlýjunni sátu menn og sötruðu bjór og horfðu á krikett, spiluðu dart eða billjard. Var ekki með pening á mér. Annars hefði ég nú örugglega freistast til að fá mér einn öl. Fer kannski á morgun.

20:41

sunnudagur, janúar 05, 2003  
Loksins eru flestir fjölmiðlar hér í UK komnir úr jólagírnum. Fréttastofur einkareknu sjónvarpsstöðvanna fóru flestar í jólafrí frá 24. desember og framyfir áramót. ITV, Channel 4 og Five voru rétt með 5 mínútna fréttayfirlit á kvöldin, ef það var þá svo gott. Fréttastofa BBC sá hins vegar ekki ástæðu til að draga saman seglin yfir hátíðarnar.
Einkareknu stöðvarnar eru líklega að reyna að spara peninga með þessu móti. Reksturinn gengur víst ekki nógu vel enda hefur verið samdráttur í auglýsingatekjum hér eins og víðar annars staðar. Alls kyns digital ævintýri fóru líka illa með sumar stöðvar.
Einkareknu stöðvarnar eru duglegar að gagnrýna BBC og það fyrirkomulag að skylda almenning til að greiða TV licence, 9 pund á mánuði fyrir hvert heimili með sjónvarp. Þeir á BBC eru duglegir að eyða tekjunum af afnotagjaldinu í aukna þjónustu, þeir hafa nýverið bætt við digital sjónvarpsstöð og eru sífellt að fjölga útvarpsstöðvum og guð má vita hvað. Það þrengir að einkareknu stöðvunum. BBC selur að vísu ekki auglýsingar en menn eru samt ósáttir því þegar fleiri áhorfendur fara yfir á BBC þá lækka auglýsingatekjur einkareknu stöðvanna. Mér sýnist umræðan hér oft vera mjög lík umræðunni heima á Íslandi, þ.e. að leggja eigi afnotagjaldið niður og að ríkið eigi helst að draga sig út úr fjölmiðlarekstri. Fjölmiðlaumhvefið hefur breyst það mikið að ríkisfjölmiðill er tímaskekkja.
BBC hefur verið að sækja í sig veðrið upp á síðkastið. Markaðsaðgerðir hafa tekið framförum og áhorf aukist. Þeir eru farnir að bjóða stjórnendum sambærileg laun á við einkareknu stöðvarnar og hafa jafnvel nælt í gott fólk þaðan. BBC er því í bullandi samkeppni við einkareknu stöðvarnar en nýtur mikils forskots vegna afnotagjaldanna. Minnir að tekjur þeirra af TV licence séu yfir 2 billjónum punda. Þokkaleg forgjöf það.

Horfi sjálfur ekki mikið á BBC. Ég reyni þó alltaf að ná Breakfast with Frost kl. 9 á sunnudagsmorgnum. David Frost er búinn að vera lengi í bransanum og er ansi mikill jaxl. Forsetar, ráðherrar, bankastjórar, stjórnendur stórfyrirtækja, stórstjörnur og allt þar á milli mæta til hans með bros á vör og leyfa honum að rekja úr sér garnirnar. Sýnist Egill í Silfrinu hafa stælt fyrirkomulagið hjá Frost. Fínt að sötra morgunkaffið með Frost og félögum.

19:30

föstudagur, janúar 03, 2003  
Árið 2003 byrjar ekki vel hér í UK. Svo mikið hefur rignt hér í suðurhluta landsins undanfarnar vikur að jarðvegurinn tekur hreinlega ekki við meira vatni. Allt rigningarvatn sem kemur niður um þessar mundir rennur því eftir yfirborðinu og beint í ár og læki. Mikið rigndi á nýársdag og í gær og í kjölfarið óx mikið í ám sem flæddu svo yfir bakka sína og inn í hús og garða. Talað er um að 2 milljónir húsa séu á mögulegu flóðasvæði. Er ekki alveg viss um hvort við séum á flóðasvæði hér. Fór reyndar út í garðinn hér alveg við húsið á nýársdag og þetta var eins og að labba á sundlaugarábreiðu eða vatnsmettuðum svampi. Greinilega mikil bleyta hér líka. Sniglarnir eru amk ánægðir. Svo fórum við í labbitúr út í parkinn hérna rétt hjá í gær. Áin sem rennur í gegnum hann var á stærð við Skaftá á heitum sumardegi og litli andapollurinn hafði breitt ansi mikið úr sér. Sem sagt allt á floti alls staðar, ekkert nema flurrrrbrrlrblbl (held hann Raggi Bjarna hafi einmitt sagt það í laginu góða).

Fyrir utan þessi flóð þá eru morð og glæpir eiginlega það eina sem kemst að í fréttatímum hér um þessar mundir. Raðmorðingjar sem búta niður fórnarlömb sín og henda í ruslatunnur eða nærliggjandi drullupolla, raðnauðgarar, krakk og vaxandi tætaraeign eru í brennidepli. Nú þykir flott að eiga Uzi og freta út í loftið og drepa saklausa vegfarendur (hvað eru annars sekir vegfarendur?) í leiðinni. Krakkneysla hefur víst aukist mikið hér í UK sl ár og þykir ástandið nú minna mikið á ástandið í New York fyrir ca 15 árum.
Mikið böl segja sumir, of mikið öl segja aðrir!


23:41

 
This page is powered by Blogger.