This page may contain traces of nuts!
|
|
|
|
|
This is where you stick random tidbits of information about yourself.
|
|
|
|
|
|
laugardagur, janúar 18, 2003
Langur laugardagur.
Tíminn líður frekar hægt þegar maður situr bara á rassgatinu og borar í nefið. Það er á hreinu.
Tel mínúturnar þangað til klukkan slær hálf-sjö. Þá byrja fréttir á Channel 4 og þá er tilvalið að fá sér að borða. Þar sem Mæja er að vinna í kvöld þá er ég bara í tilbúnu réttunum. Á matseðlinum er Spinach & ricotta cannelloni frá Tesco og Tesco finest 4 cheese & sundried tomato stromboli brauð + Pepsi max, að sjálfsögðu. Þetta brauð er algjör snilld. Hitar það í ofni og það gjörsamlega bráðnar í munninum.
Kláraði fyrir stuttu að lesa ævisögu Karls Marx eftir Francis Wheen. Splunkuný bók þar sem höfundurinn reynir að taka aðeins öðruvísi á efninu en allir þeir sem reynt hafa að tækla þetta efni áður. Þetta var fróðleg lesning því einhvern veginn vissi maður ósköp lítið um Marx þótt maður þekkti nafnið mjög vel og vissi svolítið um hvaða skoðanir hann hafði og hvað hann skrifaði. Svo var þessi Engels alltaf að flækjast þarna líka. Maður þekkti nafnið en hafði ekki hugmynd um hvaða hlutverki hann þjónaði. Nú veit ég allt um það en ætla svo sem ekkert að rekja það hér.
Eitt var þó svolítið fróðlegt. Engels var frá Manchester og þar átti pabbi hans átti vefnaðarverksmiðju þar sem mörg hundruð verkamenn unnu við bág kjör og erfið skilyrði. Engels var alltaf með annan fótinn í fjölskyldufyrirtækinu og þegar fram liðu stundir var hann aðalmaðurinn í rekstrinum. Þessi verksmiðja malaði fjölskyldunni gull og Engels hafði það alltaf mjög gott. Hann giftist aldrei en átti hjákonur hér og þar, ferðaðist um Evrópu og átti hin ýmsu rándýru áhugamál.
Marx átti hins vegar aldrei bót fyrir rassinn á sér. Hann bjó í London síðustu 30-40 ár ævi sinnar með konu sinni og fjórum eða fimm börnum og barðist alltaf í bökkum. Hann vann aldrei neina launavinnu svo heitið geti heldur sat mikið inni á British museum þar hann stundaði rannsóknir og skrifaði (þegar hann hafði heilsu til). Afrakstur þessa starfs var svo bókin hans, Kapital. Engels sá svo um að lesa yfir það sem Marx skrifaði og beindi honum í réttar áttir. Það var víst ekki vanþörf á því, Marx átti það til að gleyma sér í smáatriðum. Til vitnis um það eru footnotes upp á meira en 2 blaðsíður í fyrstútgáfu Kapital. Reyndar segja sumir að bókin Kapital sé í heild sinni til vitnis um að Marx átti það til að gleyma sér í smáatriðum. Hann fékk sáralítil viðbrögð við bókinni eftir að hún kom út. Margir eru á því að það hafi verið vegna þess að enginn skildi upp né niður í henni. Sumir kaflarnir eru víst svo mikið torf að hinir mestu spekingar gefast upp. Charles Darwin var einn af þeim. Hann sendi Marx skeyti þar sem hann óskaði honum til hamingju með frólegt og vel skrifaði verk. Svo kemur síðar í ljós, eftir að C.D. er látinn, að eintakið sem hann átti af Kapital var nær ósnert. Búið var að fletta og krota við fyrstu kaflana en svo virðist hann hafa gefist upp og ekki tekið bókina upp aftur.
En ég ætla ekki að gleyma mér í þessu smáatriði! Marx var sem sagt ekki með neinar tekjur að ráði. Eitthvað fékk hann þó fyrir að skrifa greinar í blöð í USA og Evrópu. (Það var nú reyndar Engels sem skrifaði flestar þessar greinar. Marx kom aldrei neinu í verk og ef hann kom einhverju í verk þá tók það svo langan tíma og afraksturinn var heil bók en ekki ein stutt grein). En til að geta framfleytt fjölskyldunni varð Marx að fá pening og það var Engels sem kom honum til bjargar ár eftir ár. Það má eiginlega segja að Engels hafi framfleytt Marx og fjölskyldu hans. Peningar Engels komu frá fjölskyldufyrirtækinu þannig að þetta var gróði kapitalista af vinnu verkalýðsins. Það var eitthvað sem Marx skrifaði mikið um og fannst ekki til fyrirmyndar. Í raun vildi hann afnema slíkt kerfi. Hann hafði hins vegar ekkert á móti peningunum frá Engels.
Það var þetta sem mér fannst fróðlegt.
Ég lái Marx hins vegar ekkert að taka við peningunum. Hann varð að fæða og klæða krakkaskarann. Frá því var ekki hlaupist.
17:57
|
|
|
|
|