This page may contain traces of nuts!
|
|
|
|
|
This is where you stick random tidbits of information about yourself.
|
|
|
|
|
|
fimmtudagur, nóvember 11, 2004
Go raibh maith agat
Síðastliðinn laugardag vaknaði ég örlítið þunnur á Maple Hotel í miðbæ Dublin.
Mæja var þá þegar farin niður í morgunmat sem var aðeins framreiddur á milli klukkan átta og hálftíu. Ilmandi pulsur og beikon biðu hennar á hlaðborðinu.
Kvöldið áður höfðum við verið á djamminu í Temple Bar hverfinu eitthvað frameftir nóttu með tilheyrandi húllumhæi, live music og öllum pakkanum. Sannkallað pubbarölt.
Ég var ekki alveg stemmdur fyrir morgunmatnum þegar ég vaknaði þennan morgun enda enn vel útbelgdur eftir að hafa drukkið örfáa lítra af Guinness kvöldið áður. Ég drakk reyndar ekki bara Guinness. Drakk nokkrar pæntur svona til að byrja með - þangað til ég gat ekki meira vegna seddu.
Þá var skipt yfir í lager og hann teygaður.
Samt allt í hófi.
Jújú.
Eins og þrítugum manni sæmir.
Mæja stóð sig líka vel í þessu öllu saman. Skartaði grænu pilsi af þessu tilefni og vakti mikla athygli meðal eldri borgara sem flækst höfðu á pubbinn þetta kvöld.
Ég lét það nú ekkert á mig fá. Hafði bara gaman að því.
Svo varð ég náttúrulega svangur fljótlega eftir að búið var að pakka morgunverðarhlaðborðinu saman.
Þá voru góð ráð dýr.
Reyndar rándýr.
Borgaði meira en 5 evrur fyrir skitinn hamborgara og franskar á I´m lovin´ it staðnum.
Klikka ekki á hótelmorgunmatnum aftur.
Burgerinn gerði samt sitt gagn - gaf mér gífurlega orku og bætti útlitið til muna - eða var það kannski Guinnessnum að þakka? Annaðhvort eða bæði.
Svo var deginum eytt á röltinu um borgina.
Fínasta borg. Hæfilega stór, flottir parkar og nokkur vel áhugaverð hús.
St Stephen´s Green og Dublin Castle standa uppúr.
Grafton St, verslunargatan, var líka mjög skemmtileg.
Gerðist menningarlegur og keypti eina bók eftir Dublinarmanninn James Joyce. The Dubliners heitir hún.
Simon, vinnufélagi, mælti svo eindregið með henni að ég bara stóðst ekki freistinguna.
Les hana líka fyrir jólin.
Laugardagskvöldið hófst á einumþúsundasta af pubbum bæjarins.
Reyklausir pubbar í Dublin um þessar mundir og hörkusektir ef menn sjást með tendraðan staut innandyra. Held að vertinn þurfi að borga.
Það þorir því enginn að brjóta lögin.
Í staðinn reykja menn bara fyrir utan aðalinnganginn, á gangstéttinni, eða í bjórgörðunum fyrir aftan staðina. Garðurinn á Hressó væri típískur svona bjórgarður. Margir pubbarnir voru með fína aðstöðu úti og var oftast góð stemming þar.
Gashitarar sjá um að halda hita á fólki og barinn er aldrei langt undan.
Þeir sem græða mest á reykingabanninu eru þeir sem framleiða og selja gashitara.
Það held ég.
Ef einhver er í gróðahugleiðingum á Íslandi, þar sem reykingar verða líklega bannaðar á pubbum mjög bráðlega, þá mæli ég með þessum bransa.
Ekki spurning.
Já, byrjuðum sem sagt kvöldið á einum af þessum reyklausu pubbum en fórum svo á eðalkósí franskan veitingstað, Le Cave. Í kjallara og allt voða lítið og dimmt og rautt og troðið af alls kyns France-style dóti.
Fékk mér önd og Mæja fékk sér steik. Skolað niður með rauðvíni. Frönsku.
Strunsuðum svo á O´Donoghue´s pubbinn og fengum alvöru írska stemmingu í æð. Sat þar við hliðana á gömlum gaur sem spilaði á nikku og þáði bjór fyrir. Fínn gaur. Ég saup líka mitt öl og söng svo Maístjörnuna með Mæju. Gestirnir á pubbnum voru sáttir við það og fögnuðu smá. Skrítið þetta fólk frá Íslandi.
Frammi á barnum var svo fimm manna grúppa að spila þjóðlög. Gítar, drumba, fiðla, flauta og pípa.
Sunnudagurinn byrjaði betur en laugardagurinn því ég komst í morgunmat.
Því miður var ósköp slappt framboð af morgunmat í þetta skiptið. Smá franskbrauð og skinka og ostur.
Varla safi og ekkert sætabrauð. Þetta kalla ég nú ekki continental breakfast.
Samt betra en ekkert og betra en Quarterpounder with cheese.
Og annars ekkert undan hótelinu að kvarta. Mjög gott pleis sem ég mæli með.
Þennan daginn kíktum við á Guinness verksmiðjuna og fengum okkur svo traditional írskan mat á veitingastað niðri í miðbæ.
Ég fékk mér Irish stew - eiginlega eins og kjötsúpa. Lamb, kartöflur og grænmeti í soði og sitthvað fleira.
Mæja fékk sér kartöflupönnuköku með beikoni og smjörjafningi.
Virkaði bara ágætlega á okkur. Hearty stuff.
Flug um kvöldmatarleytid og komið heim á Stocton Road um tíu.
Eðalhelgi í Dublin.
Meiri partýstaður en ég bjóst við.
Bókstaflega allt fljótandi í öli og góðri stemmingu.
Allir á klimmunni og Guinness menn mala gull - nú sem áður.
Þeir eiga það skilið. Sveimérþá.
20:57
|
|
|
|
|