This page may contain traces of nuts!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Binni i Bretlandi
 
mánudagur, apríl 19, 2004  
No worries

Si - Við Mæja erum mætt aftur til Guildford eftir eðalfrí á miðju Miðjarðarhafi.
Sicily er málið. Paradísareyja á besta stað.
Prego.

Laugardagsmorgun 10. apríl.
Stansted - Genova - Catania (á austurströnd Sicily).
Við flugum fimm stykki frá UK með RyanAir og skiptum yfir í Lufthansa í Genova.
Bæjarstæðið í Genova hlítur að teljast með þeim flottari í Evrópu - og þótt víðar væri leitað. Há fjöllin ná næstum í sjó fram og byggðin liggur í fjallshlíðunum. Borgin sjálf virkaði hins vegar vera frekar óspennandi úr lofti. Hvað sem er nú að marka það.
Þó er gaman að segja frá því að næsti bær við Genova heitir Sturla - hvorki meira né minna.

Við lentum í Catania rétt eftir hádegi og beið Francesco eftir okkur á flugvellinum. Hann var í góðum gír og brunaði með okkur beint upp í fjölskylduvilluna sem stendur í hlíðum Etnu, í ca 400m hæð yfir sjávarmáli. Þorpið heitir Valverde og er rétt fyrir utan Catania sem er önnur stærsta borgin á Sicily, á eftir Palermo. Á Sicily þykir víst betra að búa aðeins hærra því þar verður nokkuð svalara á sumrin. Ekki veitir víst af.

Villan er kapítuli út af fyrir sig.
Þvílíkt eðalpleis. Líklega mesti eðall sem ég hef kynnst.
Stór og rammlega afgirt landareign þar sem rækaðar eru appelsínur, greipaldin, sítrónur, mandarínur, bananar, krydd og grænmeti. Eðlur á vappi og söngfuglar í sumarskapi.

Á þessu svæði er jarðvegurinn einkar frjósamur vegna gosefna sem Etna hefur spúið úr sér í gegnum tíðina og segja sumir að ávextirnir frá þessu svæði séu með þeim bestu sem um getur. Vínber og ólvíur og ótalmargt annað vex þarna líka en þó ekki í garðinum góða.
Ekki spillti heldur fyrir að nú er einmitt sítrusávaxta-season á Sicily og garðurinn því einkar djúsí. Maður rölti rétt nokkra metra til að fá sér safaríka og ferska appelsínu.
Tennisvöllur og stór verönd með sundlaug kórónuðu svo pakkann, ásamt útsýni yfir Etnu og Ionian sea.
Prego.

Bara rétt að vona að Etna hristi sig ekki mikið því hún hefur víst lagt borgir og bæi á þessu svæði í rúst oftar en einu sinni. Catania var t.d. jöfnuð við jörðu í miklum jarðskjálfta árið 1693.

Húsið sjálft var byggt fyrir ca 1860 og hefur víst nokkuð sögulegt gildi.
Árið 1860 leiddi Giuseppe Garibaldi her Piedmont-manna frá Norður-Ítalíu sem réðist inn í Sicily til að frelsa hana undan yfirráðum Spánverja. Þeir tóku fyrst vesturhluta eyjarinnar og færðu sig smám saman austur á bóginn. Catania var hernuminn undir rest og dvaldist Garibaldi víst í villunni góðu á þeim tíma.
Sem sagt höfðingjasetur með sögulegu ívafi.
Francesco er Caruso og kemur frá Torino á Norður-Ítalíu. Villan er í eigu fjölskyldunnar. Hann á kannski ættir að rekja til Garibaldi. Á eftir að spyrja hann betur út í það.

Það fór einkar vel um okkur í villunni og við eyddum góðum tíma á veröndinni enda veðrið stórfínt allan tímann. Sól og blíða og ca 25 stig. Vor í lofti og blómaangan og því engin ástæða til að hanga inni.

Morgunmatur úti á verönd. Nýkreistur appelsínusafi og nýbakað brauð og kruðerí úr þorpinu. Smá blundur í sólinni eftir morgunverð og svo skoðunarferð yfir hádaginn og stundum fram á kvöld. Þegar við eyddum kvöldunum heima var síðdegisölið (Moretti) sopið og grillað undir stjörnubjörtum himni. Grillkryddið var sótt í garðinn og ég hélt mér á mottunni á meðan Grikkinn og Ítalinn deildu um grillaðferðir Miðjarðarhafsmanna.
Vínið var næstum úr næsta garði og smakkaðist enn betur fyrir vikið.

Við höfðum tvo bíla til afnota og var mér falið bílstjórahlutverk.
Umferðarmenningin á Sicily er talsvert frábrugðin því sem við eigum að venjast í Norður-Evrópu. Kaos, kraðak, læti, flækja, frekja, stælar - eru orð sem koma upp í hugann. Ég verð þó að viðurkenna að mér fannst ansi gaman að keyra við þessar aðstæður. Fílaði mig svolítið eins og tölvuleik þegar ég var að keyra mjóar götur, krappar beygjur, upp hæðir og í stórum umferðarhnútum í Catania. Vespur og mótórhjól troða sér hvar sem er, bíll við bíl og allir flautandi úr sync.
Þetta gekk þó allt saman vel og farþegar mínir, Mæja og Karen (dse German), virtust ekki vera neitt stressaðir.
Ja kannski fyrst, en síðan ekki söguna meir.

Meðal staða sem við heimsóttum má nefna kastalann í Aci Castello, þorpið Aci Trezza (þar úti við ströndina standa þrjú björg sem Kíklópar, sem bjuggu í Etnu, vörpuðu á eftir Oddyseifi skv. Iliad), borgirnar Syracusa, og Catania og bæinn Taormina.

Við sáum grískt amphitheatre (ca 2500 ára gamalt) og einnig annað rómverskt í Syracuse og kíktum á gamla bæinn sem var vægast sagt flottur.
Catania er stórborg byggð úr Etnu-grjóti sem er svart. Húsin eru því flest svört með hvítum marmaraköntum og gluggum. Mjög sérstakt en fallegt. Á fiskmarkaðnum var mikil stemming og ekki var næturlífið verra. Gott single-malt viskí var nánast gefið á einum barnum.

Við syntum í sjónum við Taormina í lítilli klettavík. Hann var svolítið kaldur enn svo ég dugði nú ekki lengi á svamli. Um miðjan maí er hann víst orðinn sæmilega góður fyrir sundsprett.

Bærinn Taormina stendur á bjargi ca 200 metra fyrir ofan ströndina. Flott hallandi bæjarstæði. Greek amphitheatre í bænum er staðsett þannig að áhorfendur hafa útsýni yfir Etnu og Ionian sea. Magnað pleis.
Þeir halda víst kvikmyndahátíð þar og þá fyllist bærinn af kvikmyndastjörnum - eins og er reyndar hefð fyrir. Ríka og fræga fólkið vandi komur sínar til bæjarins á 19. og 20. öld og naut lífsins á ströndinni og á börum og veitingastöðum.
Maður dettur í þann pakka síðar.


Svo fórum við náttúrulega upp á Etnu (3350m). Reyndar máttum við ekki fara alveg upp á topp því enn rýkur þar úr henni og ekki talið ráðlegt að senda túrista þangað. Við fórum þó eitthvað upp fyrir 2000m og röltum m.a. ofan í gíga frá 2001 gosinu. Magnað stuff.
Ég er nokkuð viss um að ég hafi sett persónulegt hæðarmet á fjalli í þessari ferð. Komst líklega eitthvað yfir 2200m - jafnvel 2300m. Fyrra met var 2119m á Hvannadalshnjúki. Verst þó að komast ekki upp á topp og bæta metið ærlega. Ég stóð mig þó betur en öflugur blaðamaður sem ég þekki sem eyddi páskunum í að klífa hæsta hól Hollands - ca 350m (úffa).
Ég verð þó að viðurkenna hér að þessi fjallaferð okkar reyndi meira á bifreið okkar en fætur. Etna er aflíðandi upp fyrir 2000m og því tilvalið að bruna upp á malbikuðum vegum.

Sem sagt allt saman alveg eðall á Sicily.

Og ég er ekki einu sinni búinn að minnast á veitingastaðina, ísinn, gömlu kallana á torgunum, fáránlega lágt verðlag og svo mætti lengi telja.
Alex the Greek, Karen dse German, Rhiannon the English, Francesco the Italian og Íslendingarnir tveir skemmtu sér konunglega á Sicily.
Okkur Mæju langar helst að fara þangað aftur og kíkja betur á vesturhlutann og sveitaþorpin inni í landi.
Nú er hægt að fljúga frá Gatwick flugvelli (rétt hjá Guildford) til Catania fyrir skít og kanel og því tilvalið að skella sér.

Snemma á föstudagsmorgun flugum við svo öll frá Catania til Rómar. Alex flaug svo beint heim til Grikklands en restin, fyrir utan Francesco, átti flug heim til UK klukkan hálfníu um kvöldið. Við áttum því góðan dag í Róm og var hann vel nýttur. Francesco þekkir borgina út og inn og var búinn að plana göngutúr framhjá helstu minnimerkjum, höllum, kirkjum, rústum og torgum. Þetta var mjög concentreraður göngutúr og ég held við höfum náð að dekka mjög góðan hluta af því helsta. Það var jafnvel tími fyrir nokkrar pæntur á meðan hellirigndi í ca tvo tíma eftir hádegi.
Við fengum því ágætis snapshot af Róm. Það var hins vegar ekkert meira en það.
Maður þarf að kíkja þangað aftur og melta borgina betur. Þvílíkt mikið að sjá.

Flug heim - mætt til Guildford um miðnætti. Búin á því en sátt við ferðalagið.
Líklega eitt það besta sem ég hef farið í.

19:41

Comments: Skrifa ummæli
 
This page is powered by Blogger.