This page may contain traces of nuts!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Binni i Bretlandi
 
mánudagur, desember 30, 2002  
Þá erum við komin aftur heim til Bristol eftir skemmtilega dvöl hjá Tolla og Hrund í London yfir jólin.
Tókum rútu frá Victoria coach station í London kl. 17 í gær og vorum komin heim á Freemantle Gardens fyrir kl. 20. Ferðin gekk sem sagt vel og áfallalaust.

Okkur Mæju tókst að skoða heilmikið í London yfir jólin. Á annan í jólum kíktum við á Westminster og Soho. Vorum að spá í að fara í London eye (Parísarhjólið mikla) en það var svo lágskýjað og þungt yfir að við hættum við. Betra að taka hringferð í björtu veðri. Verð að viðurkenna að stærðin á þessu apparati kom mér á óvart. Þetta gnæfir yfir öllu þarna í miðbænum.
Þennan dag sáum við No 10 Downing St. og þinghúsið og fleiri staði sem eru í fréttum hér á hverjum degi. Þetta var því heilmikil upplifun. Dagurinn endaði svo á góðu pöbbarölti við Piccadilly Circus og Leicester Square. Borðuðum á Fridays og ég fékk mér nautarifjasteik. Þeir hefðu frekar átt að kalla bitann nautarifjakæfu, svo mauksoðinn var hann. Mæli ekki með þessum stað.

Daginn eftir kíktum við á Tower bridge, City og Covent Garden. Mér fannst mjög gaman að rölta um City. Þetta er náttúrulega ein af fjármálamiðstöðvum heimsins og greinilegt að menn hafa í gegnum tíðina ekki byggt af neinum vanefnum þarna. Og enn er verið að byggja og nú eru það skýjakljúfar og marmara- og glerhallir. Reyndar var nú ekki mikið líf í City á þessum þriðja degi jóla. Flestir í fríi.
Um kvöldið kíktu Guðrún Norðfjörð, Jón Páll og Hildur systir Guðrúnar í heimsókn í Arlington Gardens (þar sem Tolli og Hrund búa). Sötruðum smá vín og spiluðum Trivial. Stelpurnar unnu og allt endaði í allsherjar slagsmálum. Kannski ekki alveg.

Á laugardeginum kíktum við í búðir og í Notting Hill. Töltum þar um og reyndum að spotta staði sem voru notaðir í senur í myndinni frægu. Á laugardögum er haldnir þar antík markaðir og var mikið líf og fjör á svæðinu. Eina antíkin sem ég keypti var gamalt Guiness plakat. Ánægður með það.
Um kvöldið fórum við Mæja út að borða og svo í leikhús. Sáum Sleuth sem er sýnt í Apollo Theatre. Michael Caine og Laurence Olivier léku í samnefndri mynd frá sjötíuogeitthvað. Ég sá myndina fyrir nokkru og fílaði mjög vel og hafði því áhuga á að sjá leikritið. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Plottið er þykkt og leikararnir voru í gír. Sem sagt mjög gott kvöld í London.

Það sem stendur upp úr eftir þessa London heimsókn er svæðið í kringum Piccadilly Circus og Leicester Square. Svæðið nýtur sín vel í vetrarmyrkrinu enda allt vel upplýst með jólaljósum og auglýsingaskiltum. Allt troðið af fólki og mikið líf á götunum. Fílaði þetta allt saman massavel. En það er nóg sem á eftir að skoða og spurning hvort við mætum ekki aftur til London í sumar. Gaman að kíkja á borgina í sumargír. Mig minnir að Bon Jovi verði með tónleika þarna í júní 2003. Spurning um að skella sér þá. Eða þá þegar Rolling Stones verða á svæðinu í ágúst. Sjáum til.

Annars bara ágætt að vera komin aftur heim til Bristol. Ég var kominn með smá leið á því að hanga í tjúbinu í 2 tíma á dag og vera alltaf að troðast í gegnum endalausan mannfjöldann. Nú tekur námið bara við aftur. Ætla að reyna að klára stærðfræði verkefni fyrir áramót. Svo tek ég mér frí á nýársdag og svo hefst próflestur. Mæja þarf að vinna á nýársdagsmorgun svo við ætlum bara að taka rólegt gamlárskvöld. Fá okkur eitthvað gott að borða og drekka hóflega. Ekki spurning.


10:25

Comments: Skrifa ummæli
 
This page is powered by Blogger.